ViralTrade var stofnað snemma á árinu 2012 með því markmiði að verða leiðandi hugbúnaðarfyrirtæki á sviði stafrænna eignaskipta. Viðskiptahúgbúnaður ViralTrade verður grundvöllurinn að fyrsta alþjóðlega og gegnsæja eignaskiptamarkaðnum fyrir stafrænar eignir. Markaðurinn mun gera kaupendum og seljendum stafrænna eigna og gjaldmiðla kleift að stunda viðskipti á öruggan og fagmannlegan hátt.
ViralTrade stefnir á einn stærsta stafræna eignamarkaðinn í dag, hinn svokallaða RMT endursölumarkað (e. Secondary Real Money Trading Market). RMT markaðurinn samanstendur af kaupendum og seljendum stafrænna eigna og gjaldmiðla úr stórum nettölvuleikjum. RMT markaðurinn er stór og örtvaxandi markaður. Meira en 50 milljónir einstaklinga munu kaupa og selja stafrænar eignir á markaðnum í ár og talið er að heildarvirði þessara viðskipta muni vera meira en 600 milljarðar króna. ViralTrade hugbúnaðurinn, sem er kauphöll í formi vefsíðu, verður fyrsti miðlægi, alþjóðlegi og gegnsæi markaðurinn fyrir RMT viðskipti.
Þó svo stefnan sé tekin fyrst um sinn á RMT markaðinn er ViralTrade kauphöllin þróuð með það að leiðarljósi að hægt sé að innleiða nýjar stafrænar eignir á auðveldan og fljótlegan hátt í hana. Framtíðarsýn fyrirtækisins er að ViralTrade verði markaður fyrir allar gerðir stafrænna eigna sem hægt er að versla með.
Hjá ViralTrade vinna núna fjórir einstaklingar og þar að auki eru þrír ráðgjafar. ViralTrade er aðgengileg hér.